Hitt og þetta

Ungur haförn með sendi

Ungur haförn flaug yfir okkur Hönnu litlu þegar við sátum í fjörunni við Ögur, nálægt Stykkishólmi, 24. mars sl. Örninn var með merki á fætinum, I3/38, og er kvenfugl á fyrsta vetri, ættaður úr sunnanverðum Breiðafirði. Unga assan hefur fengið nafnið Helga. Hún er með gps-sendi sem var settur á hana rétt áður en hún varð fleyg og hann sést vel á myndunum. Hann er nokkuð áberandi, hannaður til að ná nægri birtu til að hlaða sólarsellur sem knýja tækið. Þessi tækni hefur verið þaulreynd erlendis og hefur ekki sjáanleg áhrif á hegðun fuglanna.

Helga var í óðali foreldra sinna fram í febrúar, enda fara flestir arnarungar mjög seint að heiman, samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Myndin til hægri fyrir neðan sýnir ferðir Helgu 1. til 26. mars og þar sést að hún fór víða um sunnanverðan Breiðafjörð á þessum tíma. Myndin til vinstri sýnir ferðir Helgu  24. mars, daginn sem ég tók myndirnar af henni.

Helga er á meðal fjórtán ungra hafarna sem hafa fengið slíka senda, svonefnda leiðarrita, og þeir hafa varpað nýju og gagnlegu ljósi á ferðir arna síðustu misseri. Gert er ráð fyrir að ernirnir beri rafeindatækin ævilangt til að hægt verði að kortleggja nákvæmlega ferðir þeirra með tímanum. Að sögn Náttúrufræðistofnunar mun þetta nýtast við mat á þýðingu einstakra svæða og hvar beri að forðast að reisa til dæmis vindmyllur sem eru örnum skeinuhættari en flestum öðrum fuglum.

Skömmu eftir að Helga varð á vegi okkar sáum við annan ungan haförn. Hann var með merkið I2/10 og er líka ættaður úr sunnanverðum Breiðafirði. Hann var á öðrum vetri og hafði ekki komið fram áður frá því að hann var merktur í hreiðri. Þennan dag sáum við alls fjóra haferni því að fyrr um daginn flugu tveir fullorðnir ernir yfir okkur, þó í meiri fjarlægð. Þakka þetta Hönnu litlu því að hún er alger hafarnasegull.

Ferðir unga hafarnarins 24. mars, þegar myndirnar voru teknar.
Ferðir hafarnarins frá 1. mars til 27 mars, skv. upplýsingum frá sendinum.

Varasamir dílaskarfar

Þegar menn skoða dílaskarfa er ráðlegt að vera fyrir framan þá, ekki fyrir aftan. Þessir skarfar nutu lífsins á Álftanesi þegar ég kom þangað til að gægjast á þá.

Snjótittlingur

Þótt fjárans veira fólkið þjái,
ferlegar kreppur okkur hái
og frostið úti fugla hrjái
finnur hann mat á hverju strái

Seyðfirsk straumönd

Straumönd stingur sér í straumharða Vestdalsá, á móti hvítfyssandi iðunni. Straumöndin er einkennisfugl Seyðisfjarðar; harðgerð og hraðfleyg, með afbrigðum sundfim og öldungis óhrædd við að berjast á móti straumnum. Þegar hún mætir andstreymi sér hún tækifæri til að kafa eftir æti.

Glókollur á veiðum

Glókollur er minnstur fugla í Evrópu og nokkuð algengur í greniskógum á Íslandi. Aðalfæða glókollsins er grenilús, stökkmor og fleiri smádýr á trjánum. Hann andæfir stundum við greinarnar og grípur skordýr, eins og sjá má á einni myndanna.

  • Glókollur - Goldcrest