Aðrir fuglar á Íslandi

Fuglar á flugi

Maríuerla með gómsæta flugu í gogginum. Grámáfur í Plastlausum september að fjarlægja plastblómapott úr sjónum. Fengsæll hrafn á flugi með egg handa ungunum sínum. Þessir og fleiri fuglar þenja hér vængina.

  • Maríuerla – White Wagtail.

Fisknir fuglar

Toppandarkolla með sprettfisk í gogginum. Dílaskarfur sem er iðinn við kolann og  gulandarkolla að sporðrenna marhnút við strönd Grafarvogs. Þau eru hér öllsömul, ásamt  lómum að mata ungana sína í Friðlandinu í Flóa.

  • Toppandarkolla – Red-breasted Merganser, female.

Flórgoðar

Flórgoðar eru duglegir að dekra við ungana sína. Þótt ungarnir séu syndir ber annað foreldrið þá oft á bakinu til að halda í þeim hita, á meðan hitt færir þeim síli í gogginn. Þeir éta mikið og vaxa ótrúlega hratt á skömmum tíma.

Ungar

Það er alltaf gaman að taka myndir af ungum. Hér eru meðal annars æðarkolla með unga undir verndarvæng sínum, sársvangir hrafnsungar í laupi og himbrimaungi að ybba gogg við hettumáf sem var að leita að æti.

  • Æðarkollan með unga – Common Eider, female, with a chick.

 

Spörfuglar

Því miður verpa ekki margar spörfuglategundir á Íslandi en þeim hefur þó farið fjölgandi síðustu áratugi. Á meðal  spörfugla sem hafa tekið sér bólfestu hér á landi undanfarin ár eru glókollur og krossnefur. Heimurinn batnandi fer.

  • Maríuerla – White Wagtail.

Lundi

Lundastofninn er mjög stór á Íslandi, eða um tvær milljónir para. Alls eru hér um sjö milljónir lunda á haustin. Þeir halda út á Norður-Atlantshafið þegar varptímanum lýkur. 

 

Endur

Alls verpa sextán tegundir anda á Íslandi að staðaldri. Hjá andfuglum er karlfuglinn alltaf stærri en kvenfuglinn. Karlfuglinn er líka yfirleitt mun skrautlegri og fegurri. Sumt í þessum heimi er svo öfugsnúið.

  • Hávella – Long-tailed Duck.

Kría

Krían er varnarlið sumra annarra fugla, enda er hún þekkt fyrir öflugan lofthernað í varplandi sínu. Hún ver ekki aðeins eigin afkvæmi, heldur njóta aðrir fuglar einnig góðs af loftvörnum hennar. Við mennirnir fáum stundum að kenna á hernaðinum, til að mynda þegar við hættum okkur að Skálanesbjargi, við mynni Seyðisfjarðar.

Lóa í vetrarbúningi

Eftirlegulóur hafa sést í fjörum á suðvesturhorni landsins síðustu vetur, meðal annars í grennd við Gróttu. Þær hafa einnig haldið sig við volgrur nálægt fjörunni í Grafarvogi.

Kjói og spói

Hef tekið myndir af kjóapari á fjalli fyrir ofan Seyðisfjarðarbæ síðustu sumur. Kjóarnir voru þar með hreiður innan um spóa og fleiri mófugla. Þeir áttu í stöðugum erjum við spóana, enda eru kjóarnir alræmdir eggjaræningjar. Sá einn þeirra elta spóaunga en anginn litli komst undan með hjálp foreldranna.

 

Kjóarnir vörðu líka hreiðrið sitt af mikilli ákefð, flugu að mér og smelltu vængjunum á hausinn á mér þegar ég nálgaðist. Annar þeirra er skjóttur og hinn dökkur. Tvö litarafbrigði eru af kjóa, dökkt og ljóst. Dökkir kjóar eru algengari en ljósir kjóar hlutfallslega algengari nyrðra og eystra en sunnanlands.