Fuglar í útlöndum

Vefarar, örvar og fleiri fallegir fuglar

Í ferð til Namibíu í október 2022 sáum við fjölmarga fugla, þeirra á meðal örva (e. Secretarybirds), ýmsa vefara, horna, erni, hauka, svo ekki sé minnst á ástarfuglana fallegu sem nefnast róshöfðar. Vefarar eru mjög áberandi fuglar víða í Namibíu, þeirra á meðal blæjuvefarar og félagsvefarar. Blæjuvefarinn (e. Southern Masked Weaver) er nefndur svo vegna þess að karlfuglinn er með svarta „blæju“ á höfðinu. Hann vefur sér hreiður sem hangir niður af trjágreinum. Karlfuglinn gerir mörg hreiður úr grasi, pálmablöðum og reyrblöðum og makar sig með nokkrum kvenfuglum í senn.

Félagsvefarar (e. Sociable Weavers) lifa í Namibíu, Botsvana og Suður-Afríku og eru þekktir fyrir að búa til hreiður sem eru svo stór að hundruð fugla geta hafst þar við. Þeir búa til hreiðrin á trjám, síma- og rafmagnsstaurum. Fuglarnir komast inn í hreiðrin í gegnum op sem þeir láta snúa niður til að torvelda ránfuglum og öðrum hættulegum dýrum á borð við snáka að komast inn í þau.

Margir smáfuglar, t.d. róshöfðar, verpa í vefarahreiðrin sem minna á stór fjölbýlishús. Dæmi eru einnig um að stórir fuglar á borð við erni taki sér bólfestu ofan á hreiðrunum.

Krúttlegustu fuglarnir sem við sáum í Namibíu voru róshöfðar, eða Rosy-faced Lovebirds á ensku. Þeir lifa á þurrum landsvæðum í suðvestanverðri Afríku og eru þekktastir fyrir svefn- og hvíldarstellingar sínar. Pörin sitja þá hlið við hlið og snúa goggunum saman. Róshöfðar eru félagslynd dýr og sjást stundum hundruðum saman að gæða sér á fræjum eða berjum úti í guðsgrænni náttúrunni. Þeim hefur fækkað á sumum svæðum því að þeir eru vinsælir búrfuglar, því fer nú verr og miður.

Við skoðuðum líka flæmingja sem stóðu þúsundum saman á ströndinni við hafnarbæinn Walvis Bay. Í Namibíu eru tvær tegundir flæmingja, greater flamingo og lesser flamingo á ensku. Sú fyrrnefnda er stærsta flæmingjategundin í heiminum og sú útbreiddasta. Hún lifir í Afríku, Suður-Asíu, Mið-Austurlöndum og sunnanverðri Evrópu. Minni flæminginn, vatnaflæminginn, er minnsta flæmingjategundin og hún lifir í Afríku sunnan Sahara og vestanverðu Indlandi. Stærri flæminginn er að meðaltali 110-150 cm og 2 til 4 kíló, en vatnaflæminginn um 80-90 cm og 1,2 til 2,7 kíló.

Gullernir í Norður-Svíþjóð

Við fylltumst lotningu þegar örninn birtist með volduga vængina og settist á trjágrein fyrir framan okkur skömmu eftir dögun. Gullörninn er sérlega var um sig og vitur fugl. Hann sat á greininni drjúga stund og fylgdist með hópi skjóa sem nörtuðu í hræ á snjónum í jaðri skógarins.

Gullörninn og skjórinn eru stundum bandamenn í lífsbaráttunni og vinna saman þegar hungrið sverfur að á veturna. Þegar gullörninn sér hóp skjóa eða hrafna hoppa og skoppa á snjónum veit hann að dágóðar líkur eru á því að þeir hafi fundið hnossgætt hræ. Hröfnungarnir eru hins vegar ekki með nógu öfluga gogga til að geta flegið hræ spendýra sjálfir. Þá kemur sér vel að eiga hauk í horni. Þegar gullörninn kemur með sínar sterku klær og hvassan gogginn veit skjórinn að veislan getur hafist. Því að þótt örninn sé mikill um sig eru takmörk fyrir því hversu miklu hann getur torgað í einu. Svo fer að lokum að skjórinn situr einn að leifunum.

Örninn sem birtist okkur var kvenfugl. Á þessum slóðum í grennd við þorpið Kalvträsk í Norður-Svíþjóð hafa tvö gullarnarpör orpið síðustu árin og auk þeirra hafa tveir ungir aðkomufuglar hafst þar við í vetur. Eins og stundum vill henda í heimi mannanna tekur gullörninn ekki vel á móti aðkomufuglum á óðali sínu.

Þegar ernan var byrjuð að gæða sér á fæðunni birtist annar gullörn, svangur ungfugl sem færði sig að össunni í von um að komast að ætinu. Hún var þó alls ekki á þeim buxunum að deila fæðunni með aðkomufuglinum. Eftir snarpan slag tókst henni að fæla hann á brott.

Ég var staddur þarna í skóginum með nokkrum breskum ljósmyndurum, þeirra á meðal  náttúrulífsljósmyndaranum Ron McCombe, sem hefur farið í fimmtán ferðir á þessar slóðir til að taka myndir af gullörnum. Sænski fuglaljósmyndarinn Conny Lundström var okkur til ráðuneytis og við komum ekki að tómum kofunum hjá honum því að hann hefur fylgst með gullörnum skógarins í áratugi.

Gullörninn er mjög tignarlegur, enda oft nefndur konungsörn á öðrum málum. Hann er meðal stærstu arna í heiminum, en minni en haförninn. Líkamslengd evrópska gullarnarins er á bilinu 80-93 cm (hafarnarins 77-95 cm) og vænghafið 190-227 cm (hafarnarins 200-245 cm). Kvenfuglinn vegur um 4-6 kg en karlinn er talsvert minni, eða 3-4,5 kíló.

Sænski gullörninn lifir aðallega á nagdýrum og fuglum á borð við rjúpu og orra. Hann á það einnig til að éta stærri spendýr, svo sem rauðref, lömb og nýborna hreindýrskálfa, og sækir oft í hræ á veturna.

Örninn svífur stundum yfir veiðilendunum í mikilli hæð og steypir sér niður eftir bráðinni. Hann getur þá náð miklum hraða, um 240-320 km/klst., og aðeins förufálkinn er hraðfleygari.

Víða í Evrópu er algengast að gullernir eigi sér hreiður í klettum en í norðanverðri Svíþjóð gera flestir þeirra sér hreiður í gömlum og háum furutrjám. Meðalaldur trjánna sem þeir velja er 355 ár og meðalhæð þeirra 17,2 metrar. Trjágreinarnar þurfa að vera burðugar því að gullarnarhreiður geta vegið nokkur hundruð kílógrömm.

Flestir gullernir lifa í fjalllendi og fjarri mannabyggðum, enda hafa þeir lært að forðast manninn eins og heitan eldinn.

  • Gullernir

Fuglar í Svíþjóð

  • Kampameisa – Bearded Reedling.

Ernir og fleiri fuglar í Finnlandi

Haustið 2017 fór ég í fuglaskoðunarferð til Finnlands og dvaldi í tæpa viku í grennd við borgina Oulu í norðanverðu landinu. Meginmarkmiðið var að sjá gullerni í fyrsta skipti og það tókst að lokum með þrautseigju og þaulsetu þótt janúar og febrúar séu bestu mánuðirnir til að skoða þessa tignarlegu fugla í návígi á þessum slóðum. Á móti kom að tækifæri gafst til að skoða aðra fugla í kynngimögnuðum finnskum skógum í haustlitum.

  • Sparrhaukur
    Sparrhaukur – Sparrow Hawk.

Fálkar og fleiri fuglar í Norfolk á Englandi

Norfolk-sýsla á Austur-Englandi nýtur mikilla vinsælda á meðal breskra fuglaáhugamanna því að þar má finna margar fuglategundir sem eru sjaldgæfar annars staðar á landinu. Í sýslunni eru nokkur þekkt friðlönd, meðal annars í grennd við þorpið Titchwell, þar sem fuglalífið er sérlega fjölbreytilegt. Ég dvaldi í rúma viku í Norfolk í júní 2018 og sá margar tegundir sem ég hafði aldrei augum litið áður, meðal annars nokkra fágæta flækinga, fallegar uglur með hjartalaga andlit og þrjár tegundir fálka. 

Í ferðinni sá ég til að mynda förufálka sem hafði tekið sér bólfestu á kirkjuturni í fallegum strandbæ, Wells-next-the-Sea. Í einu friðlandanna sé ég gunnfálka sem voru nýkomnir til Norfolk frá Afríku og veiddu drekaflugur. Í nálægum bæ sást turnfálki á flugi undan hópi landsvala sem eltu hann. Hann rak þá augun í fuglahús þar sem ungar hnotigðupars biðu eftir gómsætum flugum í gogginn. Þótt turnfálkinn lifi aðallega á stúfmúsum og öðrum nagdýrum stóðst hann ekki mátið og reyndi að klófesta litlu ungana. Honum tókst það þó ekki, gafst að lokum upp og flaug í burtu.

Á meðal flækinganna sem sáust voru þyrnisvarrar sem voru eitt sinn algengir varpfuglar í Bretlandi en verpa þar nú sjaldan. Sumar tegundirnar flækjast stundum til Íslands eða fjúka hingað með lægðunum sem herja á landið.

  • Turnfálki – Kestrel.

 

Fuglar í Lefkada, Grikklandi

Í bænum Lefkada á samnefndri eyju í Grikklandi er fjölbreytt fuglalíf. Ég dvaldi þar í hálfan mánuð í júlí 2019 og fór í gönguferðir snemma á morgnana til að skoða fugla bæjarins áður en sólarbirtan varð of sterk. Sá þá flæmingja og fleiri fugla sem ég hafði aldrei augum litið áður. Hefði þó viljað fara þangað að vori eða hausti til þegar hitinn er skaplegri og fuglalífið enn fjölbreyttara. Þá er meðal annars hægt að sjá þar pelíkana sem koma við á lóni við bæinn á fartímanum.

  • Flæmingjar – Flamingoes.