Flækingar

Útlendir flækingar eiga það til að hrekjast hingað með lægðunum sem gleðja okkur fuglaskoðara ár hvert. Hér eru myndir sem ég hef tekið af flækingum síðustu árin.

Bláþyrill

Náði myndum af bláþyrli sem dvaldi í nokkrar vikur við Mógilsá í Kollafirði í ágúst og september 2019. Þetta var fyrsti fuglinn af þessari tegund sem sést hefur á Íslandi. Þessi fallegi flækingur var mjög styggur og forðaðist fólk eins og heitan eldinn. Bláþyrill lifir við ár og vötn í Evrópu og víðar, veiðir fisk með því að stinga sér í vatnið.

Silkitoppa

Silkitoppan er óreglulegur gestur og kemur stundum til Íslands í stórum hópum á haustin og veturna. Hún verpur nyrst í barrskógabelti Skandinavíu, Rússlands, Síberíu og Norður-Ameríku. Silkitoppur éta reyniber og önnur aldin þegar þær koma til Íslands og þiggja epli sem góða fólkið gefur þeim í görðum sínum. Þessar myndir tók ég í garði fuglavina á Garðarsveginum á Seyðisfirði.

Gráhegri

Gráhegrinn er útbreiddur í Evrópu og Asíu og algengur vetrargestur hér á landi. Hingað koma aðallega ungfuglar frá Noregi og þeir sjást um land allt í fjörum, við ár, læki, tjarnir og vötn. Hann stendur oft krafkyrr við vatnsbakkann tímunum saman og bíður eftir fiski. Hann er oft tignarlegur á flugi því að vængirnir minna á arnarvængi, eru breiðir og fingraðir. Gráhegrarnir eru oft mjög styggir og ekki er hægt að læðast að þeim án þess að fæla þá í burtu. Eina ráðið er að fylgjast með þeim úr fjarlægð og athuga hvert þeir fara, velja sér síðan góðan stað og bíða þar í felum, í von um að þeir komi.

Aðrir flækingar

Gaman er að fylgjast með fuglalífinu í Sólbrekkuskógi á Suðurnesjum, einkum á vorin og haustin. Guðmundur Falk fuglaljósmyndari hefur gefið fuglum fóður í skóginum reglulega síðustu árin og segir að þangað komi margir flækingar, einkum á haustin þegar mestar líkur eru á því að sjá þar fugla sem koma frá Ameríku. Á meðal þeirra er moldþröstur, sem er norður-amerísk tegund og mjög sjaldséð hér á landi. Guðmundur sá alls 180 tegundir fugla á árinu 2019 og setti þar með Íslandsmet. 

  • Moldþröstur – Swainson’s Thrush.