Íslenskir ránfuglar

Hafernir á góðum degi

Einn góðan veðurdag í byrjun júlí 2020 vorum við Hanna litla á göngu meðfram strönd á Snæfellsnesi þegar fullorðinn haförn flaug í áttina að okkur í leit að æti. Þar sem við getum seint talist girnilegur matur hélt örninn ferðinni áfram. Skömmu seinna birtust þrír ungir hafernir og svifu yfir okkur. Tveir þeirra byrjuðu að fljúgast á í loftinu eins og ungviðinu er tamt en sem betur fer varð ekki mikið fjaðrafok.

Við vorum ekki nálægt arnarhreiðri, þannig að ég tók upp myndavélina þegar í stað, eins og venja er við slíkar aðstæður. Annars hefði ég þurft að biðja um leyfi Umhverfisstofnunar. Við settumst niður og tveir ungfuglanna flugu yfir okkur til að berja okkur augum. Seinna kom fullorðni haförninn aftur og sveif yfir okkur.

Að minnsta kosti þrír arnanna voru merktir og ég sendi sérfræðingi Náttúrufræðistofnunar Íslands nokkrar myndanna. Hann komst að því að enginn fuglanna var merktur í hreiðri á þessum slóðum. Fullorðni örninn var ellefu ára, merktur sem ungi í hreiðri á sunnanverðu Snæfellsnesi. Annar ungfuglanna var rúmlega tveggja ára og merktur á Hvammsfirði en hinn liðlega ársgamall, merktur við Húnaflóa. Sérfræðingurinn sagði að óvenjulegt væri að
menn kæmust í svona gott færi við þetta  marga haferni á þessum slóðum og það á björtum
og fallegum sumardegi.

Hér á síðunni eru myndir af haförnunum góðu, ásamt fálkum, smyrlum og branduglum. Smyrillinn er algengasti ránfuglinn og verpur víða á Íslandi. Fálkinn verpur dreift um landið og er algengastur í Þingeyjarsýslum. Fálkapörin dvelja á óðalinu sínu allt árið en ungfuglarnir ferðast víða um landið og halda sig við ströndina yfir háveturinn, m.a. á höfuðborgarsvæðinu. Branduglan verpur líka dreift, m.a. við höfuðborgarsvæðið og í Ölfusi, og er algengust nyrðra.

Fullorðinn haförn

Ungur haförn

Fálki

Smyrill

Brandugla