Ófleyg dýr

Í góðum selskap í náttúrunni

Hér eru nokkrar myndir af ófleygum dýrum, meðal annars íslenskum selum sem finnst stundum gott að liggja í leti og láta sig dreyma í mjúku fleti, eins og þessi fyrir ofan. Með þeim eru fílar, ljón, gíraffar, blettatígrar og fleiri dýr sem urðu á vegi mínum og Hönnu litlu í Namibíu í ferð með ferðaskrifstofunni Obeo Afríka í október 2022. Rúsínan í pylsuendanum eru sænskur rauðrefur, íslensk tófa, hagamús og laxar sem minna reyndar stundum á fugla þegar þeir stökkva.

Fílar í Namibíu

Til eru tvær tegundir fíla í Afríku, þ.e. afríski gresjufíllinn (Loxodonta africana) og skógarfíllinn (Loxodonta cyclotis) sem er dekkri og mun minni. Gresjufíllinn er stærsta landdýr sem lifir á jörðinni. Fílarnir geta orðið 7,5 metra langir, 3,9 metra háir og vegið meira en 10 tonn. Þeir lifa á grasi, trjáberki, laufum, rótum, ávöxtum og blómum. Meðalfíllinn étur um það bil 230 kílógrömm á dag og drekkur allt að 180 lítra af vatni. 

Talið  er að nú séu um 24.000 fílar í Namibíu og þeim hefur fjölgað á síðustu árum. Áður hafði þeim fækkað svo mikið að þeir voru í mikilli útrýmingarhættu.


Dýr með stórt hjarta

Gíraffar eru hæstu spendýr jarðar, háfættastir og hálslengstir. Vegna hálslengdarinnar eru þeir með óvenju stórt hjarta, sem vegur allt að ellefu kílógrömm og getur dælt gríðarlegu magni af blóði í hverju slagi. Þeir eru einnig með lengstu tungu allra núlifandi dýra jarðar og hún er um 45 til 55 cm á lengd. Gíraffinn vefur tungunni um greinar trjáa til að rífa af þeim laufblöðin. Tungan og munnurinn hafa aðlagast sérstaklega til að geta étið þyrna akasíutrjáa. Þar fyrir utan eru þeir mjög falleg dýr og virðast vera mjög vinalegir, að minnsta kosti í hæfilegri fjarlægð.

Ljón í Namibíu

Að minnsta kosti 150 ljón lifa í villtri náttúru í Namibíu, flest þeirra í Etosha-þjóðgarðinum og í norðaustanverðu landinu. Talið er að þau hafi aðeins verið um tuttugu í Namibíu fyrir þremur áratugum þegar hafnar voru skipulegar aðgerðir til að vernda þau. Nú eru allt að 25.000 ljón í allri Afríku og þeim hefur fækkað úr 100.000 frá sjöunda áratug aldarinnar sem leið. Fækkunin er einkum rakin til þess að ljónin hafa misst búsvæði á gresjunum vegna landbúnaðar og þéttbýlismyndunar.

Namibískir blettatígrar

Blettatígrar eru spretthörðustu dýr jarðar og geta náð yfir 110 km hraða á klst. á aðeins þremur sekúndum. Þegar þeir eru á fullu skriði er skreflengd þeirra sex til sjö metrar. Blettatígrar lifa á gasellum, impalahjörtum, meðalstórum antílópum, hérum, fuglum og nagdýrum. Þeir þurfa oft að sjá eftir bráð sinni í gin sterkari dýra, svo sem ljóna og híena sem eru skæðir keppinautar þeirra og veiða oft hvolpa þeirra sér til matar. Blettatígrar (þ.e. bæði kynin) lifa að meðaltali í 10 til 12 ár en meðalævilengd karldýranna er aðeins tæp 8 ár, m.a. vegna þess að margir þeirra drepast í baráttu um landsvæði. Blettatígrar hafa misst um 90% búsvæða sinna í heiminum og talið  er að núna lifi aðeins um 7.100 blettatígrar í villtri náttúru. Þeir eru verndaðir í Namibíu og þar eru fleiri blettatígrar en í nokkru öðru landi.


Aragrúi af antilópum

Antilópur skiptast í um 30 ættkvíslir og 90 tegundir, sem lifa flestar á gresjum Afríku. Þær eru mjög sundurleitur hópur klauf- og jórturdýra af ætt slíðurhyrninga. Á meðal þeirra eru t.d. gasellur, óryxar, gnýr og stökkhjörtur. Oryxar eru ættkvísl sem skiptist í fjórar tegundir (ein í Arabíu, önnur í Norður-Afríku, sú þriðja í Austur-Afríku og fjórða í sunnanverðri Afríku). Tegundin sem lifir í Namibíu nefnist sverðantílópa (e. Gemsbok, Oryx gazella), enda með horn sem minna á sverð. Hún er sérlega falleg, eins og reyndar stökkhjörturinn. Gnýrinn (e. Blue wildebeest) líkist nautgripi um höfuðið en hesti á skrokkinn, er með fax, hökuskegg og langan hala með skúf á endanum.

  • Sverðantilópa – Gemsbok

Krúttlegir jarðkettir

Krúttlegustu dýrin sem við sáum í Namibíu eru jarðkettir (e. meerkats) sem lifa í sunnanverðri Afríku, þ.e. í Suður-Afríku, Botsvana og Angóla, auk Namibíu. Jarðkettir lifa í göngum sem þeir grafa í jörðina og fóðra með grasi. Þeir eru oftast í 20-30 dýra hópum og lifa á jurtum og ýmsum smádýrum, svo sem skordýrum, litlum snákum, nagdýrum og fuglum. Þegar hópurinn veiðir sér til matar standa tveir jarðkattanna á varðbergi á afturfótunum og gefa frá sér hljóð til að vara hina við þegar hætta steðjar að. Jarðkettirnir forða sér þá í göngin.


Smádýr í eyðimörkinni

Við Hanna litla skoðuðum dýr sem lifa í Namib-eyðimörkinni, m.a. sandgekkó, kameljón og eðlu sem dansar og kafar í sandinn.  Þessi dýr hafa lagað sig að aðstæðunum í elstu eyðimörk heims.

Namibíski sandgekkóinn (Pachydactylus rangei) er með fit á milli tánna sem gera honum kleift að hlaupa hratt á sandinum og auðvelda honum að grafa sig niður. Hann heldur sig í sandinum á daginn en veiðir skordýr á næturna.

Namaqua-kameljón (Chamaeleo namaquensis) gladdi líka auga okkar. Litaskipti kameljónsins verða ekki vegna lita í umhverfinu eins og margir halda, heldur fyrir áhrif hita, birtu og geðbrigða. Namaqua-kameljónið er yfirleitt grátt eða brúnleitt, með ljósa flekki á síðunni en dökka á hryggnum og litirnir breytast eftir hita og birtu í umhverfinu. Hitabreytingarnar geta verið mjög miklar í eyðimörkinni, steikjandi hiti um miðjan daginn en kuldi á nóttunni og snemma á morgnana. Litaskiptin hjálpa kameljóninu að stilla hita líkamans. Það dökknar á morgnana þegar kalt er til að taka í sig varma en lýsist um miðjan daginn til að endurkasta sólarljósi og kæla sig.

 

Við sáum líka eðlu (Meroles anchietae) sem kælir sig í steikjandi hitanum með því að dansa, þ.e. lyfta fótunum til skiptis upp úr sandinum. Þegar hitinn er svo mikill að dansinn dugir ekki kafar eðlan í sandinn. Hún er með flatt trýni sem gerir henni kleift að kafa djúpt niður í sandinn til að flýja hitann eða rándýr. Hún getur falið sig í sandinum í allt að sólarhring.

  • Sandgekkó – Namib Dune Gecko

Loðselir á Krosshöfða

Við Hanna litla sáum þúsundir loðsela á Krosshöfða (e. Cape Cross) á Beinagrindaströndinni í ógleymanlegri ferð okkar með Obeo Afríka um Namibíu. Þar er eitt stærsta selalátur heims, með allt að 210.000 seli, með tilheyrandi óþef, hávaða og átökum milli brimla. Loðselirnir hafa einkum verið veiddir vegna skinnsins en líka vegna þess að kynfæri þeirra seljast dýrum dómum í Japan, enda sögð auka kynorku þarlendra karlmanna. Tegundin nefnist höfðaloðselur. Hann er af ætt hreifadýra sem nefnist eyrnaselir því að þeir eru með tvö, lítil eyru, ólíkt eiginlegum selum sem hafa tvö lítil op að innri heyrnarfærum. Þeir eru náskyldir sæljónum en talið er að þessar tvær tegundir hafi aðskilist fyrir þremur milljónum ára.


Krókódílar, flóðhestar og vörtusvín

Við Hanna litla sáum meðal annars vörtusvín, flóðhesta og krókódíla á einum gististaðanna, Erindi, í Namibíuferðinni með Obeo Afríka. Og þar sem ég er áhugamaður um tannheilsu eyddi ég síðdegi í það að skoða flóðhesta sem göptu þegar ég mundaði myndavélina.

  • Flóðhestur – Hippopotamus

Sebrar, nashyrningar, bavíanar og nagdýr

Í Namibíuferðinni sáum við meðal annars sebra, nashyrninga, bavíana, héra, íkorna og mýs, auk allra dýranna hér að ofan og fugla sem fjallað er um á annarri síðu, Fuglar í útlöndum.

  • Sléttusebrar – Plains Zebras

Rauðrefur í Svíþjóð

Rauðrefurinn er mesti refur heimsins, afar kænn í lífsbaráttunni og kann að bjarga sér við mjög ólíkar aðstæður. Hann er á meðal útbreiddustu rándýrategunda heims, lifir nær hvarvetna á norðurhveli jarðar, í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og Norður-Afríku. Hann er algengur jafnt á reginöræfum sem í sveitahéruðum og hefur fjölgað sér í almenningsgörðum og úthverfum stórborga. Hann finnst þó ekki á Íslandi og fleiri stöðum á norðurhjara, meðal annars köldustu svæðum Síberíu.
Hlýnun jarðar hefur ásamt öðru stuðlað að því rauðrefurinn hefur færst norðar og er farinn að ógna tilvist tófunnar, eða heimskautarefsins. Nú er svo komið að tófan er í útrýmingarhættu í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Talið er að þar séu nú aðeins um 250 fullvaxta tófur. Rauðrefurinn er stærstur og sterkastur refa og vitað er að hann hefur drepið tófur og yrðlinga þeirra. Á meðal annarra afræningja tófunnar eru gullernir, jarfar, úlfar og birnir.

Talið er að í Svíþjóð séu um 150.000 fullvaxta rauðrefir. Ég hitti einn þeirra á förnum vegi í Norður-Svíþjóð árið 2019.

Selir

Tófa í Heiðmörk

Hagamús í Heiðmörk

Fljúgandi fiskar í Korpu