Forsíða

Fuglar og fleiri dýr í myndum

Góðan daginn og takk fyrir innlitið.

Fuglar og fleiri dýr eru mínar ær og kýr þegar stund gefst á milli stríða. Það hvarflar þó ekki að mér að skjóta fuglana með byssu, hvað þá boga. Við eigum ekki að skjóta fugla, heldur að taka myndir af þeim og njóta þess að horfa á þá. Hér eru myndir sem ég hef tekið af fuglum og fleiri dýrum síðustu árin, aðallega á Íslandi en einnig í öðrum löndum.

Á meðal fuglanna á myndunum eru flækingar sem hafa hrakist hingað yfir hafið, til að mynda bláþyrill, tegund sem hefur aðeins sést einu sinni hér á landi. Ennfremur eru myndir af bráðstyggum gráhegrum sem eru árlegir vetrargestir á Íslandi, aðallega ungfuglar frá Noregi. Á meðal annarra flækinga eru moldþröstur, amerísk tegund sem er mjög sjaldgæf hér á landi. 

Á myndavefnum eru einnig fuglar sem verpa á Íslandi, allt frá fallegum smáfuglum á borð við glókoll og músarrindil til fugla sem veiða önnur dýr sér til matar. Þeirra á meðal eru hafernir, fálkar, branduglur og smyrlar. Hér eru þó engin illfygli, hvað sem hver segir um fugla eins og svanga kjóa úti í móa.

Sumir fuglanna eru á flugi, aðrir að sporðrenna fiski eða að gæða sér á gómsætri flugu. Flórgoðar eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér á sumrin þegar þeir eru að dekra við litlu ungana sína.

Hér eru ekki aðeins íslenskir fuglar. Á einni síðunni eru myndir af fuglum í öðrum löndum, meðal annars af tignarlegum gullörnum í Norður-Svíþjóð og Finnlandi, sparrhauki, turnfálka og þyrnisvarra, meira að segja busksöngvara sem ég hitti á förnum vegi í Norfolk á Englandi. 

Rúsínurnar í pylsuendanum eru selir, tófa, rauðrefur, hagamús og fljúgandi fiskur. En myndirnar segja meira en þrjú hundruð orð.

Brást mér bogalistin? Láttu mig þá vita.

 

  • Hávella
    Hávella – Long-tailed Duck.

Fálkar, flækingar og fleiri fuglar

Fjölbreytt dýralíf í Namibíu

Við Hanna litla Boga fórum í ævintýraferð til Namibíu í október 2022 og sáum þá fjölmarga fallega fugla og önnur dýr. Í Namibíu eru alls nær 690 fuglategundir, þar af er ein sem lifir hvergi annars staðar, er einlend. Það er lævirki sem kenndur er við sandöldur, á ensku Dune Lark, og er algengur víða á Namib-eyðimörkinni.

32 fuglategundanna lifa aðeins í Namibíu og næstu grannríkjum, þ.e. Suður-Afríku, Angóla eða Botsvana. Þeirra á meðal eru fagurspjátrur (e. Namaqua Sandgrouse) og damaratóki, Tockus damarensis, sem nefnist Damara Red-billed Hornbill á ensku. Hann er aðeins í norðanverðri Namibíu og suðvesturhluta Angóla.

Þótt eyðimerkur þeki stóran hluta Namibíu er dýralífið mjög fjölbreytt í landinu. Auk fugla eru þar til að mynda 81 snákategund, þar af 52 eiturslöngur og eitrið úr ellefu getur verið banvænt. Á meðal prímata sem finna má víða í Namibíu eru fjallabavíanar (e. Chachma Baboon) og markettir (e. Vervet Monkey), sem eru hvorki sjávardýr né kettir, heldur smávaxnir apar. Í norðausturhluta landsins eru einnig litlir galago-apar, e. Lesser Bushbaby, sem eru rófulangir hálfapar, með stór augu og eyru og langa hlaupafætur.

Á meðal rándýra í Namibíu eru söðulsjakalar, blökurefir, villihundar, blettahíenur, ljón, hlébarðar og blettatígrar. Þar eru einnig mörg hófdýr, m.a. Afríkufílar, sebrar, nashyrningar, flóðhestar, gíraffar, Afríkubuffalar og nokkrar antilóputegundir, m.a. skrúfhyrnur (e. Greater Kudu), elandantilópur (e. Eland), sverðantilópur (e. Gemsbok, l. Oryx gazella), gnýir (e. Blue Wildebeest), impalahirtir (e. Impala) og stökkhirtir (e. Springbok).

Fuglalífið er einnig mjög fjölskrúðugt í Namibíu og alls hafa um tuttugu staðir verið viðurkenndir sem mikilvæg fuglasvæði. Þeirra á meðal er Etosha-þjóðgarðurinn, þekktasti þjóðgarður landsins, sem nær yfir 23.000 ferkílómetra. Þar má meðal annars finna blátrönur (e. Blue Crane) og vörtutrönur (e. Wattled Crane), fjólukappa (e. Violet Wood-hoopoe), nokkrar slúðrutegundir (e. babblers), dröfnuspjátrur ( e. Burchell‘s Sandgrouse), auðnalápur (e. Double-banded Courser), sléttulápur (e. Temmick‘s Courser), kjarrpáfa (e. Rüppel‘s Parrot), risadoðrur (e. Kori Bustard), örva (e. Secretarybird), þyrnifálka (e. Pygmy Falcon) og loddur (e. Bateleur) sem eru á meðal algengustu arnanna.

Bengúelastraumurinn, kaldur og næringarríkur hafstraumur sem fer í norður meðfram suðvesturströnd Afríku, er undirstaða eins af auðugustu fiskimiðum heimsins og viðheldur mjög öflugu lífríki við strönd Namibíu. Hafstraumnum fylgir þoka sem sér mörgum dýra- og plöntutegundum fyrir nægum raka til að lifa af á Namib-eyðimörkinni sem er talin vera elsta eyðimörk jarðarinnar, um 80 milljón ára gömul. Allt að 100.000 fuglar hafast við á sumrin nálægt hafnarbænum Walvis Bay og strandbænum Swakopmund, stærsta votlendi við strendur sunnanverðrar Afríku. Á meðal fuglategunda sem sjá má þar eru flæmingjar, hvalþernur (e. Damara Tern), sem eru með svartan gogg og svart höfuð á varptíma, og margir vaðfuglar frá  Evrópu, meðal annars Íslandi. Þeir hafa sumarsetu í Namibíu þegar vetur konungur ríkir á norðurhveli jarðar.

Fuglaskoðun og ferðaþjónusta

Mikill vöxtur hefur verið í fuglaferðaþjónustu í heiminum síðustu árin. Á hverju ári fara tugir milljóna manna í fuglaskoðunarferðir og margir þeirra ferðast til annarra landa í þeim tilgangi einum að skoða fugla.

Fuglaskoðun og fuglaljósmyndun hefur notið sívaxandi vinsælda á Vesturlöndum. Fjöldi þeirra sem stunda fuglaskoðun hefur til að mynda margfaldast á síðustu áratugum í Bandaríkjunum. Rannsókn á vegum bandaríska landbúnaðarráðuneytisins bendir til þess að fuglaskoðun sé það tómstundagaman sem hafi verið í mestum vexti í Bandaríkjunum síðustu ár. Rannsóknin leiddi í ljós að um 35% allra fullorðinna Bandaríkjamanna stunduðu fuglaskoðun á árunum 2005 til 2009. Um 20 milljónir þeirra fóru í fuglaskoðunarferðir fjarri heimabyggð sinni og vörðu að meðaltali fjórtán dögum á ári í slíkar ferðir. Þeim sem stunda  fuglaskoðun og fuglaljósmyndun hefur einnig fjölgað mjög í Evrópulöndum á borð við Bretland, Holland, Danmörk, Frakkland og Svíþjóð.

Talið er að í heiminum öllum séu um 3,5 milljónir utanlandsferða farnar á ári hverju í þeim tilgangi einum að skoða fugla eða taka myndir  af þeim. Milljónir annarra hafa fuglaskoðun ofarlega í huga þegar þeir velja áfangastaði sína á ferðalögum utan heimalandsins.

Rannsóknir benda til þess að margir þessara ferðamanna séu á aldrinum 40 til 70 ára, tiltölulega vel stæðir og tilbúnir að borga vel fyrir tækifæri til að skoða fugla sem sjást ekki í heimalandi þeirra. Til að mynda hafa ferðamenn borgað jafnvirði alls 840 til  1.250 milljóna króna á ári fyrir ferðir til skosku eyjunnar Mull í því skyni að skoða haferni.

Ránfuglar og sjófuglar á borð við lunda eru vinsælustu tegundirnar á meðal þeirra sem ferðast til annarra landa í því skyni að skoða fugla, ef marka má bandaríska rannsókn. Á eftir þeim koma fallegir söngfuglar sem sjást ekki í heimalandi ferðafólksins.

Þótt fuglategundirnar séu tiltölulega fáar á Íslandi er fuglalífið hér einstakt að mörgu leyti og hægt væri að laða fjölmarga ferðamenn hingað til lands með því að leggja meiri áherslu á að ná til þeirra sem stunda fuglaskoðun reglulega. Ekki má þó ganga of langt í þeim efnum því að varast þarf að raska fuglalífinu.